Tekist á um sæmdarmorð í Belgíu

Fyrstu réttarhöldin vegna svonefnds „sæmdarmorðs" standa nú yfir í Belgíu. Er pakistönsk fjölskylda, foreldrar og systkini, ákærð fyrir morð á ungri stúlku í Belgíu, en hún hafði neitað að ganga í hjónaband sem fjölskylda hennar hafði ákveðið fyrir hennar hönd.

Öllum að óvörum játaði bróðir hennar, Mudusar Sheikh, 27 ára, að  hafa einnig skotið aðra systur sína við sama tækifæri en hún lifði árásina af. 

Laganeminn Sadia Sheikh var skotin til bana þann 22. október 2007 en hún hafði boðið fjölskyldu sinni birginn með því að neita að ganga í hjónaband með manni sem fjölskyldan hafði valið fyrir hana. Auk þess var hún í sambúð með belgískum manni án samþykkis fjölskyldunnar.

Foreldrar hennar og systir eru ákærð fyrir að hafa aðstoðað við morðið og að hafa hvatt til þess en stúlkan var myrt er hún var í heimsókn hjá fjölskyldunni og vildi sættast við fjölskylduna.

Mudusar hafði játað á sig morðið og segist hafa verið einn að verki. Hann játaði hins vegar í dag að hafa reynt að myrða litlu systur sína, Sariyu, sem nú er 22 ára að aldri, við sama tækifæri. Hann hafði ekki upplýst lögmann sinn um það fyrirfram að hann ætlaði að játa á sig tilraun til manndráps í dag. Sagðist hann vilja segja fjölskyldu sinni frá þessu og að hann hafi ætlað sér að myrða báðar systurnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert