Bjóða upp rúmföt Hitlers

Adolf Hitler.
Adolf Hitler. mbl.is

Tvenn rúmföt sem Adolf Hitler átti verða boðin upp í Bristol á Englandi í næstu viku. Búist er við því að jafnvirði rúmrar hálfrar milljónar króna fáist fyrir hvor þeirra. Eru rúmfötin með ísaumuðum erni sem situr á hakakrossi og fangamarki Hitlers.

Um er að ræða eitt lak og koddaver sem sagt er koma úr íbúð Hitlers í Munchen. Er það uppboðsfyrirtækið Dreweatts sem selur munina í Bristol á þriðjudag. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

„Það er afar sjaldgæft að hlutar af rúmfötum Hitlers með ísaumuðum upphafsstöfum hans og einkennismerki komi á markað. Það var einkasafnari sem keypti þessa muni í Þýskalandi fyrir einhverjum árum,“ segir Malcolm Claridge, hernaðarsérfræðingur uppboðsfyrirtækisins.

Þegar Hitler og Eva Braun frömdu sjálfsmorð árið 1945 mun Anni Winter, ráðsmaður Hitlers, hafa tekið ýmsa muni með sér úr íbúð foringjans við Prinzregentenstrasse í Munchen til að forða þeim frá ræningjum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert