Kjósendur repúblikana í Bandaríkjunum eru uggandi yfir mormónatrú Mitts Romneys en þó ekki svo mikið að það vinni gegn honum yrði kosið á milli hans og Baracks Obama. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem birt var í dag.
Flestir búast við því að Romney hljóti útnefningu Repúblikanaflokksins til að vera frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum á næsta ári en stjórnmálaskýrendur hafa haldið því fram að mormónatrú hans verði honum til trafala.
Um 53 prósent evangelískra kristinna í Iowa, sem er eitt helsta vígi repúblikana, segja að mormónatrú sé ekki kristin trú og fimmtán prósent segja að það dragi úr líkunum á því að þeir myndu styðja Romney.
Væri hann hins vegar í framboði gegn Obama forseta myndu þessir sömu kjósendur gerast harðir stuðningsmenn Romneys en 91 prósent segist myndu styðja repúblikanann. Auk þess sögðust 79 prósent myndu styðja hann kröftuglega.
Ef litið er til allra repúblikana sem tóku þátt í könnuninni studdu 87 prósent Romney gegn Obama en 71 prósent sagðist styðja hann af krafti. Sýnir það að þeir sem hafa mestar efasemdir um trú hans væru dyggustu stuðningsmenn hans.