Var send 13 ára í þrælkunarbúðir

Suður Kóreskur mótmælandi stendur á andlitsmynd af Kim Jong-il, einræðisherra …
Suður Kóreskur mótmælandi stendur á andlitsmynd af Kim Jong-il, einræðisherra Norður Kóreu. Reuters

Norður Kóresk kona, sem lifði af 28 ára dvöl í einum af fangabúðum kommúnistaríkisins, sagði merka sögu sína á mannréttindaráðstefnu sem haldin var í Genf í Sviss í dag.

Kim Hye Sook var þrettán ára þegar hún var send ásamt foreldrum sínum í Gwalliso No 18-fangabúðirnar, sem eru fangabúðir fyrir pólitíska fanga. Hún segist hafa reglulega horft upp á opinberar aftökur og séð fólk svelta í hel í fangabúðunum. Að sögn Kim voru fangarnir látnir stunda þrælkunarvinnu á meðan fangaverðirnir svívirtu þá og komu fram við þá „verr en við hunda“.

Kim, sem slapp úr prísundinni árið 2001, býr nú í Suður-Kóreu. Hún grét á meðan hún sagði sögu sína á ráðstefnunni, en í frásögn hennar kom meðal annars fram að hún hefði orðið vitni að aftökusveitum og að hún hafi svelt sjálfa sig í von um að geta gefið systkinum sínum að borða, en þau voru einnig fangar í búðunum.

Rúmlega 200 þúsund pólitískir fangar eru í haldi í fangabúðum Norður-Kóreu, sem eru sex talsins. Að sögn talsmanna Citizens Alliance for North Korean Human Rights, samtaka sem berjast fyrir auknum mannréttindum í Norður-Kóreu, hefur einræðisstjórn landsins ávallt neitað tilvist fangabúðanna.

Að sögn Kim, fá margir fangar, líkt og hún, aldrei nokkurn tímann að vita af hverju þeir voru handteknir og þeir fangar sem óska eftir rökstuðningi eiga yfir höfði sér dauðarefsingu.

„Það var aldrei nóg til af mat og margir fanganna sveltu til dauða. Það leið ekki á löngu þar til ég fann ekki fyrir neinu er ég sá lík af dauðu fólki enda sá ég mjög mörg lík,“ sagði Kim í 10 blaðsíðna langri frásögn sinni.

„Fangarnir þarna vissu ekki einu sinni hvað hugtakið „mannréttindi“ þýðir. Þeir bjuggu við verri aðstæður en hundar.

Í frásögn Kim kemur fram að rúmlega 100 opinberar aftökur hafi farið fram í fangabúðunum á hverju ári vegna allskyns afbrota á borð við t.d. stuld á korndufti og hjátrú. „Ég sá opinbera aftöku í fyrsta skipti þegar ég var 13 ára varnarlaust barn,“ sagði Kim á ráðstefnunni og bætti við „allir í fangabúðunum voru neyddir til þess að horfa á aftökurnar.“

Eftir að hún var flokkuð sem fyrirmyndarverkamaður í námum fangabúðanna, fékk Kim leyfi til þess að giftast og síðar meir til þess að fæða tvö börn. Eiginmaður hennar og bróðir létust þó báðir í námuslysum í fangabúðunum.

Þegar hún slapp úr prísundinni tókst henni að flýja til Suður-Kóreu með því að fara yfir landamæri Norður-Kóreu og Kína og loks í gegnum Tæland. Á meðan hún dvaldi í Kína varð hún fyrir enn einu áfallinu þegar húsið, sem hún gisti í, eyðilagðist í flóði.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti sl. mánudag ályktun sem fordæmir mannréttindabrot í Norður-Kóreu, þá einkum ólögmætar fangelsanir, ómannúðlegar aðstæður fanga og opinberar aftökur. Allsherjarráðið fordæmdi einnig „tilvist fjölmargra fangabúða og gríðarlega mikla þrælkunarvinnu“.

„Stanslauss erfiðis og þrautseigju er krafist af þeim sem hér eru samankomnir í dag til þess að hvetja stjórnvöld í Norður-Kóreu til þess að gera jákvæðar breytingar á ástandi mannréttinda í landinu,“ sagði Benjamin H. Yoon, stofnandi og formaður Citizens Alliance for North Korean Human Rights.

Mannréttindavaktin, sem einnig stóð að baki ráðstefnunni, segir að persónulegir vitnisburðir væru mjög mikilvægir í þessu tilfelli þar sem það væri nær ómögulegt fyrir mannréttindahópa að komast til Norður-Kóreu í þeim tilgangi að meta stöðuna. Að sögn Philippe Dam, talsmanns Mannréttindavaktarinnar í Genf, hafa góðgerðarsamtök ekki heimsótt Norður-Kóreu síðan Amnesty Internatinal heimsótti kommúnistaríkið snemma á 10. áratugnum.

„Einu sönnunargögnin sem við getum reitt okkur á eru vitnisburðir flóttamanna,“ sagði Dam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert