Íslamska bræðralagið, sem er ein valdamesta stjórnmálahreyfing Egyptalands, hefur slitið öll tengsl við mótmælendur sem hafast við á Tahrir torgi í Kaíró. Flokkurinn einblínir þess í stað á komandi kosningar, en búist er við að hann muni hljóta mikið fylgi. Þingkosningar eru fyrirhugaðar á mánudaginn. Bræðralagið vill að íslömsk lög gildi í landinu og að konum verði ekki heimilt að bjóða sig fram til forseta.
Enn kom til átaka á milli mótmælenda á Tahrir-torgi í Kaíró og lögreglu í nótt. Lögregla skaut byssuskotum í loft upp og beitti táragasi til að dreifa mótmælendum. Talið er að 37 hafi látist í óeirðum undanfarinna fimm daga og að allt að 2000 manns séu særðir.
Íslamska bræðralagið var stofnað árið 1928 og er sú stjórnmálahreyfing landsins sem einna best er skipulögð, en eftir afsögn Mubaraks, fyrrum forseta landsins þann 11. febrúar síðastliðinn, stofnaði Bræðralagið Frelsis- og réttlætisflokkinn.
Stjórnmálaskýrendur telja að nokkrir hagsmunaárekstrar hafi verið á milli Bræðralagsins og herforingjaráðsins, sem hefur farið með völd í landinu frá falli Mubaraks. Þrátt fyrir það hafi ekki komið til stórvægilegra árekstra. Bent hefur verið á að Bræðralagið komi nú fram á annan hátt en það gerði í aðdraganda byltingarinnar.
Verði Bræðralagið sigurvegari kosninganna, eins og margt bendir til, munu lög landsins taka mið af íslömskum lögum og íslamstrú verður ríkistrú landsins.
Þetta hafa Koptar, sem eru kristinn trúflokkur, gagnrýnt ákaft, en þeir eru um 10% landsmanna. Bræðralagið hefur lýst því yfir að Koptum verði ekki heimilt að bjóða sig fram til forseta og að það sama muni gilda um konur, sama hverrar trúar þær séu.