Ofsaveður er nú í Færeyjum og hafa landfestar að minnsta kosti tveggja skipa slitnað í veðurhamnum. Að sögn færeyskra fjölmiðla hefur vindhraðinn farið upp í 54 metra á sekúndu en er nú að jafnaði 30-38 metrar á sekúndu.
Fram kemur á vefnum olivant.fo, að landfestar báta hafi slitnað bæði í Fuglafirði og Skálafirði.
Lögreglan í Þórshöfn hefur fengið yfir 100 tilkynningar um foktjón í Færeyjum í kvöld.
Óveðurslægð er nú á milli Íslands og Færeyja og stefnir á Noreg. Hefur norska veðurstofan gefið lægðinni nafnið Berit.