Meirihluti vill banna nýnasistaflokk

Stuðningsmenn nýnasistaflokksins NPD.
Stuðningsmenn nýnasistaflokksins NPD. Reuters

Þrír af hverjum fjórum Þjóðverjum vilja láta banna nýnasistaflokkinn NPD samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem birt var í dag. Nýlega komst upp að hópur öfgahægrimanna hefði myrt tíu manns, flesta þeirra tyrkneska búðareigendur.

Samkvæmt könnuninni vilja 77 prósent Þjóðverja láta banna flokkinn en 19 prósentum finnst að starfsemi hans ætti að vera áfram lögleg. Fjögur prósent voru óákveðin.

Upplýst var á dögunum um að lítill hópur nýnasista væri talinn bera ábyrgð á óupplýstum morðum á átta mönnum af tyrkneskum uppruna og einum Grikkja á árunum 2000 til 2006 og lögreglukonu árið 2007. Hefur málið vakið upp ásakanir um að landsmenn hafi litið fram hjá uppgangi hægriöfgamanna þrátt fyrir skömm Þjóðverja á arfleið sinni úr seinni heimsstyrjöldinni. Hefur Angela Merkel, kanslari, sagt að morðin séu hneisa fyrir Þýskaland.

Hefur starfshópur verið settur á laggirnar sem á að meta hvort banna eigi starfsemi NPD. Flokkurinn sameinaðist nýlega litlum hægriöfgahópi, DVU, sem stofnaður var árið 1964 af fyrrverandi nasistum. Árið 2009 voru um sex til sjö þúsund meðlimir í flokknum. Hefur hann aldrei náð sæti í þingkosningum en hefur hins vegar náð mönnum inn í ýmsum sveitar- og héraðsstjórnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka