Breivik telur sig eiga þakkir skildar

Teikning, sem gerð var af Anders Behring Breivik þegar hann …
Teikning, sem gerð var af Anders Behring Breivik þegar hann kom fyrir rétt í Ósló í síðustu viku. Reuters

Þegar Anders Behring Breivik óskaði eftir því að fá að ávarpa fórnarlömb og aðstandendur í réttarsal í síðustu viku var það ekki vegna þess að hann vildi biðjast afsökunar á ódæðisverkum sínum. Þvert á móti ætlaði hann að útskýra fyrir fjölskyldunum að þær ættu að þakka honum fyrir. Hann hefði gert þær að píslarvottum fyrir göfugan málstað. Frá þessu greinir Aftenposten.

Dómari hafnaði beiðni Breivik um að fá að ávarpa gesti í réttarsalnum þegar gæsluvarðhald var framlengt yfir honum á mánudag. Í Aftenposten í dag er dregin upp mynd af lífi Breivik og honum lýst sem manni með margar hliðar sem hann sýni eftir hentugleka. Blaðið hefur eftir nokkrum sérfræðingum að Breivik glími við alvarlegar persónuleikaraskanir. Sálfræðingar hafa reynt að greina undirliggjandi orsakir þess að Breivik varð einn versti fjöldamorðingi mannkynssögunnar. Aftenposten hefur eftir heimildum að hans eigin útskýring sé sú að hann hafi þróað með sér sterka samkennd.

Þegar Breivik var spurður hvernig hann gæti mögulega komist að þeirri niðurstöðu um sjálfan sig, í ljósi þess að hann hefði myrt 77 manns og þar á meðal mörg börn, svaraði Breivik að með verknaðinum hefði hann bjargað milljónum mannslífa. Hann segist hafa slíka samúð með kynslóðum framtíðar í Evrópu, sem hann telur að verði undir hælnum á íslamistum, að hann hafi fundið sig knúinn til að grípa til aðgerða.

„Hann hefur þannig skipað sjálfan sig dómara, kviðdóm og böðul og gerði í eigin huga fórnarlömbin að píslarvottum,“ segir í Aftenposten í dag. Þar af leiðandi telji hann einnig að aðstandendur barnanna á Útey eigi að þakka honum fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert