Dagurinn eftir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum er yfirleitt einn annasamasti dagur ársins hjá kaupmönnum vestanhafs. Jólaandinn var víst ekki kominn yfir menn þennan svarta föstudag þetta árið og bárust lögreglu margar tilkynningar.
Einn maður var skotinn á bílastæði fyrir utan eina af verslunum Walmart í Kaliforníuríki Bandaríkjanna. Þá reyndu tveir menn að ræna verslun í Suður-Karólínu með þeim afleiðingum að kona var skotin í fótinn og karlmaður í höfuðið.
,,Við heyrðum að hleypt var af byssu, en héldum fyrst að um flugelda væri að ræða þangað til við sáum fólk koma á hlaupum út úr versluninni," sögðu sjónarvottar.
Mikil örtröð myndaðist fyrir við eina af verslunum Walmart í New York-ríki og var ein kona tröðkuð niður í látunum.
,,Móðir mín var í röðinni til þess að kaupa síma. Ég vissi að eitthvað myndi gerast því það var búið að vera mjög erilsamt alla nóttina. Það næsta sem ég veit er að móðir mín er komin í jörðina og 200 manns standa ofan á henni," sagði sonur konunnar.