Herþyrlur frá Nató í Afganistan gerðu „tilefnislausa“ árás á pakistanska landamærastöð í dag með þeim afleiðingum að 20 pakistanskir hermenn féllu. Pakistönsk yfirvöld hafa brugðist við með því að stöðva birgðaflutning til herliðs Nató í Afganistan. Haft er eftir háttsettum embættismanni að afleiðingarnar muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samskipti þjóðanna.
Að sögn talsmanns friðargæsluliðs Nató í Afganistan, Isaf, er verið að safna upplýsingum um atvikið. Um 40 vöruflutningabílar með birgðir til hersveita Nató hafa hinsvegar verið kyrrsettir á landamærunum, en um helmingur vista hersins í Afganistan kemur í gegnum Pakistan.
Pakistanski herinn hefur í gegnum tíðina sakað hersveitir Nató um að brjóta flughelgi landsins í eltingaleik sínum við skæruliða talíbana, sem gera árásir á Afganistan og flýja svo yfir landamæri.
Nú segir herinn að herir Nató hafi gert „tilefnislausa skotárás á landamærastöð Pakistan í Mohmand aðfaranótt sunnudags.“ Ríkistjóri héraðsins fordæmir Nató harðlega fyrir árásina og segir að hún brjóti gegn sjálfstæði Pakistan. Hermennirnir sem féllu hafi dáið píslarvættisdauða.