Gingrich fær mikilvægan stuðning

Newt Gingrich.
Newt Gingrich. AP

Stærsta dagblaðið í New Hampshire lýsti í dag yfir stuðningi við Newt Gingrich sem sækist eftir að verða forsetaefni í Repúblikanaflokknum. Prófkjör fer fram í ríkinu 10. janúar en miklu skiptir hver sigrar þar.

Newt Gingrich, er fyrrverandi leiðtogi Repúblikanaflokksins, í fulltrúadeildinni. Kosningabarátta hans fór hægt af stað. Honum gekk illa að safna í kosningasjóð og margir voru á því að hann yrði ekki meðal þeirra sem helst myndu berjast um útnefningu.

Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóri í Massachuesetts, hefur fram til þessa notið mests fylgis. Um tíma leit út fyrir að Rick Perry, ríkisstjóri í Texas, myndi sópa til sín fylgi en hann kom inn í baráttuna á mikilli siglingu. Hann er hins vegar nánast úr leik núna vegna klaufalegrar framkomu í kappræðum.

Herman Cain hefur einnig fengið mikið fylgi í könnunum, en eftir að ásakanir komu fram um að hann hefði áreitt konur þykir ólíklegt að hann sigri. Fylgi við Gingrich hefur verið að vaxa síðustu vikurnar og víst er að stuðningsmenn hans fagna mjög stuðningsyfirlýsingu frá stærsta blaði New-Hampshire.

Blaðið segir að Gingrich hafi sýnt leiðtogahæfileika. Hann sé ekki fullkominn frambjóðandi, en blaðið minnir kjósendur líka á að þeir geri oft óraunhæfar kröfur um hvernig frambjóðendur eigi að vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert