Sleðahundarnir í Qaanaaq ýlfra nú af hungri. Dýravinir í Grænlandi hafa sent þangað hundafóður að andvirði um 540.000 íslenskra króna til að slá á sárasta hungur 400-500 sleðahunda á svæðinu. Ísleysi kemur í veg veiðar og því skortir hundana fóður.
Ástæðan er ísleysi og óvenjulegt veðurfar sem veldur því að veiðimenn hafa ekki getað aflað matar fyrir sleðahundana. Þeir binda vonir við að aukinn rostungakvóti geti bjargað málunum, að sögn grænlenska útvarpsins KNR.
Útlit er fyrir að veðrið í vetur verði jafnumhleypingasamt og í fyrra. Ekki er eftir að veiða nema tólf rostunga af veiðikvóta þessa árs en heildarkvótinn var 64 rostungar fyrir svæðið. Lagt er til að kvótinn verði aukinn.
Mads Ole Kristiansen frá KNAPP sagði að fyrir fimm árum hafi hafið byrjað að leggja í byrjun nóvember. Þá gátu veiðimennirnir auðveldlega veitt bæði lúðu og sel fyrir hunda sína. Nú er ekki útlit fyrir að hafið leggi í bráð á Qaanaaq-svæðinu. Þar er of lítill hafís til þess að veiðimennirnir komist til veiða.