Anders Behring Breivik sem framdi fjöldamorðin í Útey hefur verið metinn ósakhæfur af norskum réttargeðlæknum.
Dómari við héraðsdóm í Ósló fékk í morgun afhenta 243 síðna langa skýrslu geðlækna um mat á sakhæfi Breiviks og komust þeir að þeirri niðurstöðu að fjöldamorðinginn sé sjúkur á geði.
Norska dagblaðið VG segir frá þessu á vefsíðu sinni. Skýrt verður formlega frá niðurstöðunni á blaðamannafundi, sem hefst klukkan 12 að íslenskum tíma í Ósló.
Tveir af kunnustu réttargeðlæknum Noregs, Torgeir Husby og Synne Sørheim, hafa skrifað skýrsluna og byggja hana meðal annars á fjölda viðtala við Breivik. VG segist hafa upplýsingar um, að niðurstaða skýrslunnar sé sú, að Breivik hafi verið í sturlunarástandi og því ekki verið ábyrgur gerða sinna þegar hann myrti 77 manns í Ósló og Úteyju í júlí í sumar.
„Við höfum ekki verið í neinum vafa. Nú er það undir réttinum komið að meta þessa niðurstöðu," sagði Husby þegar hann afhenti héraðsdómara skýrsluna í dag.
Breivik telur sjálfur að hann sé sakhæfur og hefur áður sagt, að hann óttist að mannorð hans skaðist þegar skýrsla geðlæknanna verður birt.
VG segir, að undir eðlilegum kringumstæðum þýði niðurstaða geðlæknanna, að Breivik verði látinn sæta vist á réttargeðdeild.