Rúmlega fertugur karlmaður frá bænum Skien í suðurhluta Noregs hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa reynt að saga af fótleggi og handleggi eiginkonu sinnar samkvæmt fréttavefnum Thelocal.no.
Þegar lögreglu bar að garði hafði maðurinn nánast sagað af annan fótlegg konunnar. Konunni, rúmlega þrítugri að aldri, hafði ennfremur verið komið fyrir í sjóðandi vatni og steikingarolíu auk þess sem hún hafði verið stungin með hnífi í höfuðið og skorin með hnífum.
Nágrannar höfðu látið lögreglu vita af háværum öskrum frá íbúð fólksins. Konan hlaut mjög alvarleg meiðsli, marbletti og annars stigs brunasár vegna meðferðarinnar á andliti, hálsi, bringu og handleggjum auk alvarlegra áverka á fótleggjum.
Lögmaður konunnar segir að undrum sæti að hún skuli enn vera á lífi í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Fram kemur í fréttinni að fólkið sé af erlendum uppruna. Konan hafi komið til Noregs fyrir um tveimur árum síðan en maðurinn fyrir um ári.
Talið er að tilefni málsins sé að maðurinn hafi kennt eiginkonu sinni um að illa hafi gengið fyrir þau að fá varanlegt dvalarleyfi í Noregi.