Laurent Gbagbo, fyrrverandi forseti Fílabeinsstrandarinnar, er nú kominn til Hollands en þar mun hann svara til saka frammi fyrir Alþjóðlega glæpadómstólnum. Hann er ekki sá eini sem þarf að svara til saka fyrir meint afbrot sem framin voru í kjölfar þingkosninga þar, að sögn saksóknara.
Gbagbo kom til Hollands í dag vegna handtökuskipunar Alþjóðlega glæpadómstólsins í Haag. Hann er fyrsti fyrrverandi þjóðhöfðinginn sem gerir það.
Gbagbovar var fluttur í varðhald í Scheveningen þar sem hann mun dvelja á meðan dómstóllinn réttar yfir honum vegna glæpa sem framdir voru á fjórum mánuðum eftir að Alassane Ouattara var kjörinn forseti Fílabeinsstrandarinnar.
Dómstóllinn, sem er í Haag, er einnig að eltast við Omar al-Bashir, forseta Súdans, og að rannsaka meinta glæpi í Kenýa og Mið-Afríkulýðveldinu. Dómstóllinn hefur neitað að tjá sig um handtökuskipunina.
Rannsókn hófst í síðasta mánuði á morðum, nauðgunum og öðrum ofbeldisverkum sem unnin voru á fjórum mánuðum eftir að Gbagbo neitaði að láta völdin af hendi til Alassane Ouattara eftir kosningarnar í fyrra. Ófriðnum linnti ekki fyrr en hersveitir hliðhollar Ouattara, sem nutu stuðnings Frakka, handtóku Gbagbo hinn 11. apríl síðastliðinn.