Játar frjálslegt kynlíf

Dominique Strauss-Kahn
Dominique Strauss-Kahn Reuters

Fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, játar í nýrri bók að hafa lifað frjálslegu kynlífi en í bókinni sem franski blaðamaðurinn Michel Taubmann ritar er því haldið fram að Strauss-Kahn sé fórnarlamb samsæris.

Í bókinni ræðir Strauss-Kahn á opinskáan hátt um kynlífshneyksli sem hann hefur þurft að svara fyrir undanfarna mánuði. Meðal annars var hann sakaður um að hafa reynt að nauðga hótelþernu í New York þann 14. maí sl.

Í bókinni er herbergisþernan Nafissatou Diallo sökuð um að vera þátttakandi í samsæri um að sverta mannorð Strauss-Kahn og er í bókinni dylgjað um að hún hafi stolið Blackberry-síma í eigu AGS sem Strauss-Kahn var með.

Heldur Strauss-Kahn því fram að ekkert af þessu hefði gerst ef hann hefði ekki tekið þátt í kynlífi með Diallo á hótelinu. Með því hafi hann opnað gáttir allra annarra kynlífssambanda sem hann hafi átt í gegnum tíðina. 

Samkvæmt Taubmann, kom Nafissatou Diallo inn í herbergi Strauss-Kahn er hann var að ganga út af baðherberginu nakinn. Hún hafi sent honum tvírætt augnaráð sem hann tók sem tilboð og þau hafi haft kynmök í kjölfarið. Taubmann segir að Strauss-Kahn hafi ekki nauðgað neinum og að um samsæri hafi verið að ræða sem snúist um pólitík og ekkert annað.

Í bókinni kemur fram að sími Strauss-Kahn hafi horfið eftir að hann hafði mök við Diallo og að brotist hafi verið inn í símann og gögnum stolið úr honum í kjölfarið.

 Strauss-Kahn játar í bókinni að hafa tekið þátt í makaskiptaveislum en neitar að hafa vitað að einhverjir þátttakendanna væru vændiskonur. „Þegar einhver kynnir þig fyrir unnustu sinni þá gerir þú yfirleitt ekki ráð fyrir að viðkomandi sé vændiskona."

Hann neitar því að hafa nokkurn tíma brotið lög og segir að frjálslegt kynlíf sitt sé ekki ólíkt því sem margir Frakkar úr efri stéttum stundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert