Sarkozy: Óttinn lamar

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti segir að ótti sem lamar bæði neytendur og atvinnurekendur hafi snúið aftur. Frakkar óttist að þeir ráði ekki lengur eigin örlögum. Þetta kom fram í ræðu sem Sarkozy flutti í dag og þótti forsetinn taka sterkt til orða.

„Óttinn hefur snúið aftur. Þessi ótti sem leggur sjálfstraust í rúst, þessi ótti sem lamar neytandann, sem hindrar fjárfestinn í að fjárfesta, atvinnurekandann að reka fyrirtæki, forstjóranum að ráða starfsmenn, banka að lána fé. Þessi ótti á nafn. Þetta er óttinn sem blundar í Frökkum að þeir ráði ekki lengur eigin örlögum,“ sagði Sarkozy í ræðu, sem hann flutti í Toulon í dag.

Ræða forsetans er sögð leggja grunninn að umdeildri áætlun sem miðar að því að veita Evrópursambandinu meira svigrúm til að stýra fjármálum Evrópuríkja. Ríki Evrópu reyna nú að binda enda á skuldavandann sem þau hafa glímt við í rúm tvö ár og vilja þau koma fyrirbyggjandi aðgerðum til framkvæmda.

Sarkozy varar við því að hlutirnir eigi eftir að breytast og að þeir eigi eftir að breytast hratt, bæði innan evrusvæðisins og utan þess.

„Nýr efnahagstíð er hafin. Þessi tíð mun vera mjög ólík þeirri fyrri. Komandi tíð mun vera tíð þess að losna undan skuldum, sem mun koma jafnvægi á hagkerfi eins og þörf krefur, í átt að vinnu og framleiðslu, sem er eitthvað sem þróuð ríki eiga til með að fórna um of,“ sagði Frakklandsforseti.

Sarkozy segir ennfremur að hann standi með evrunni og kallar eftir því að evrusvæðið verði að sannri efnahagslegri ríkisstjórn. Hann hyggst koma þeirri áætlun til framkvæmda með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á ESB-ráðstefnum sem verður haldin í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert