Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, telur ekki endilega nauðsynlegt að gera breytingar á sáttmálum Evrópusamabandsins til þess að takast á við efnahagskrísuna á evrusvæðinu. Þetta kom fram í máli hans eftir fund með Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í París í dag samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com.
Bæði Sarkozy og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa talað fyrir því í vikunni að breyta þurfi sáttmálum ESB til þess að bjarga evrusvæðinu. Hins vegar er ljóst að verði sáttmálunum breytt gæti það kallað á þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingarnar í Bretlandi í samræmi við nýlega lagasetningu þar í landi.