Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í dag að fjárlagabandalag Evrópuþjóða sé við það að komast í burðarliðinn. Því muni fylgja sterk yfirsýn yfir fjárlög í því skyni að berjast við skuldakreppu evrusvæðisins.
„Við erum ekki bara að tala um fjárlagabandalag, við erum byrjuð að búa það til,“ sagði Merkel í ræðu í þinginu sem beðið hafði verið með eftirvæntingu. Hún bætti því við að það yrði „fjárlagabandalag með ströngum reglum, að minnsta kosti fyrir evrusvæðið.“
Merkel sagði að síðustu mánuðir hafi verið lýjandi og einkennst af ringulreið á mörkuðum, hættunni á greiðslufalli himinhárra skulda Grikkja og pólitískum átökum í Evrópusambandinu.
„Ef einhver hefði sagt fyrir fáeinum mánuðum að í lok ársins 2011 myndum við vera í fullri alvöru að stíga ákveðin skref í átt að evrópsku stöðugleikasambandi, evrópsku bandalagi um fjárlög, í átt til þess að grípa til afskipta (af fjárlögum) í Evrópu, þá hefði hann verið talinn galinn,“ sagði Merkel.
Í ræðunni gerði Merkel grein fyrir því sem hún sagði vera markmið Þýskalands, stærsta efnahagsveldis Evrópusambandsins, í aðdraganda leiðtogafundar í Brussel í næstu viku.
Merkel ætlar að funda með Sarkozy Frakklandsforseta á mánudaginn kemur og ætla þau að móta þar sameiginlega afstöðu fyrir leiðtogafundinn.