Nýtt met var sett í sölu skotvopna í Bandaríkjunum á einum degi á svonefndum „svörtum föstudegi“ í liðinni viku. Alls voru seldar rúmlega 129 þúsund byssur daginn eftir þakkargjörðarhátíðina vestanhafs sem er 32% aukning frá fyrra meti.
Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, var fyrra metið slegið á svörtum föstudegi árið 2008 er tæplega 99 þúsund byssur voru seldar. Segist FBI ekki hafa skýringu á þessari aukningu.
Stór hluti af vopnum var seldur til fólks sem var að kaupa sitt fyrsta skotvopn og helsta skýringin hjá kaupendum er að þeir séu að vígbúast í varnarskyni. Það sé stjórnarskrárbundinn réttur þeirra að verja sig og sína nánustu.