Breivik ósáttur við greiningu

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik Reuters

Anders Behring Breivik er ósáttur við greiningu tveggja norskra réttargeðlækna um að hann hafi verið geðveikur þegar hann framdi voðaverkin í Noregi í sumar. Þetta segir lögmaður hans í viðtali við dagblaðið Verdens Gang í dag.

„Við höfum skoðað stóran hluta skýrslu geðlæknanna þar sem sagt er frá samtölum sem hann átti við þá,“ segir Odd Ivar Groen. Breivik hafi sagt að í skýrslunni væru staðreyndavillur og lygar og að yfirlýsingar hans hefðu verið teknar úr samhengi.

Breivik var metinn ósakhæfur af réttargeðlæknunum. Í 243 síðna langri skýrslu um mat á sakhæfi hans, sem afhent var dómara við héraðsdóm í Ósló á þriðjudaginn, komust læknarnir að því Breivik væri sjúkur á geði. Þá kom fram að Breivik hafi lengi liðið af ofsóknargeðklofa og að ástand hans í dag væri afleiðing sjúkdómsins.

Groen sagði að hann hefði eytt sex klukkustundum í að ræða skýrsluna við Breivik. „Hann heldur að læknarnir hafi álitið sumar yfirlýsingar hans undarlegar sem honum sjálfum fannst ekki vera undarlegar. Og hann er ekki sammála þeim um að hann sé sjúkur á geði.“ Breivik hafi áhyggjur af því að læknarnir hafi ekki næga þekkingu á pólitískum hugsjónum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert