Þrátt fyrir fréttir af alvarlegri stöðu ríkisfjármála víða í Evrópu létu íbúar álfunnar slíkar fréttir ekki trufla jólagjafakaupin um helgina.
Gríðarlegur fjöldi heimsótti Toys"R"Us-leikfangaverslunina í La Defense-hverfinu í París í gær og hefur AFP-fréttastofan eftir gestum verslunarinnar að fólk ætli ekki að láta efnahagsástandið spilla jólunum fyrir börnunum þetta árið. Fólk virðist þó treysta á að lottóið komi til bjargar í ár þar sem sjaldan eða aldrei hafa fleiri lottómiðar selst í Evrópu og nú.
Tchao-Di Calvi, 69 ára, var meðal fjölmargra sem voru í jólagjafakaupum í París í gær og segir hún að hún láti kreppuna ekki eyðileggja jólagjafakaupin í ár svo lengi sem hún eigi pening eyði hún þeim í gjafir handa barnabörnunum. „Jú, ég fylgist með fréttunum en ég held að við eigum að bíða róleg og sjá hvað gerist, hvers vegna eigum við að hafa áhyggjur núna?," segir hún í samtali við AFP-fréttastofuna.
Fleiri sem AFP-fréttastofan ræddi við í jólaösinni í gær voru sama sinnis, staða Frakklands væri mun betri heldur en margra annarra ríkja í Evrópu.
Í könnun sem Deloitte gerði meðal íbúa fimmtán ríkja Evrópu í síðasta mánuði voru það einungis Hollendingar, Írar, Ítalir og Portúgalar sem ætluðu að halda að sér höndum í jólagjafakaupum í ár. Annars staðar ætlaði fólk að eyða meira fé í jólagjafir heldur en í fyrra.
Lopapeysa í fyrra en spjaldtölva í ár
Rannsóknasetur verslunarinnar spáir því að að jólaverslunin aukist um 2,5% frá síðasta ári á Íslandi í ár. Leiðrétt fyrir verðhækkunum er spáð samdrætti um 2% að raunvirði. Jólagjöfin í ár er, að sögn sérstakrar dómnefndar á vegum rannsóknarsetursins, spjaldtölva. Í fyrra var það lopapeysa.
Síðustu þrjú ár hefur velta jólaverslunar dregist saman að raunvirði á Íslandi. Mestur var samdrátturinn árið 2008, eða um 19% að raunvirði. Á síðasta ári var samdrátturinn kominn niður í tæp 3%.
Áætlað er að heildarvelta smásöluverslana í nóvember og desember verði tæplega 60 milljarðar króna án virðisaukaskatts.
Ætla má að hver Íslendingur verji að meðaltali um 38.000 kr. til innkaupa sem rekja má til jólahaldsins.