Yfir hundrað dýraverndunarsinnar á Spáni stóðu fyrir nöktum mótmælum í miðbæ Madrid í dag þar sem þeir mótmæltu slátrun dýra til að búa til loðfeldi. Mótmælendur, sem voru þaktir rauðri málningu til að tákna blóð, lögðust á götuna og hringuðu sig saman hver upp við annan á Plaza de Espana-torginu. Þeir lágu á torginu í um hálftíma, þrátt fyrir nokkurn kulda, en eftir það stóðu mótmælendur upp og fyrir þá var borin heit grænmetissúpa til að þeir fengju hita í kroppinn.
„Við viljum að neytendur séu meðvitaðir um þær hræðilegu þjáningar sem þessi grimmi og ómannúðlegi iðnaður felur,“ sagði Sergio Garcia Torres, talskona mótmælenda. „Með svo marga kosti þegar kemur að því að klæða sig er ekkert vit í því að nota skinn af dýrum til að búa til föt sem er hægt að gera á marga aðra vegu.“
Samkvæmt dýraverndunarsamtökunum eru yfir 60 milljón dýr, þar á meðal refir, minkar, bjórar og gaupur, alin í búrum og svo slátrað á grimmilegan hátt til að búa til loðfeldi. Spánn, Grikkland, Þýskaland og Ítalía eru helstu framleiðendur pelsa í heiminum.