ESB fagnar niðurskurði á Ítalíu

Olli Rehn og Mario Monti.
Olli Rehn og Mario Monti. Reuters

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur að niðurskurðaráform ítölsku ríkisstjórnarinnar séu skref í rétta átt og stuðli að því evru-svæðið rétti úr kútnum á ný.

„Skrefin sem stigin voru í gær eru mjög mikilvæg," segir talsmaður efnahagsmála hjá framkvæmdastjórninni, Amadeu Altafaj, á blaðamannafundi í Brussel í dag.

Mario Monti, forsætisráðherra, kynnti í gærkvöldi víðtækar aðgerðir til þess að draga úr skuldum ríkissjóðs og á fimmtudag koma leiðtogar Evrópusambandsríkjanna saman á fundi í Brussel þar sem skuldavandi evru-ríkjanna verður ræddur.

Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál hjá framkvæmdastjórn ESB, fagnar aðgerðum ítalskra stjórnvalda en hvetur stjórnvöld þar í landi til þess að gera enn betur. 

„Þessi pakki er mjög mikilvægt skref í að setja ríkisfjármálin í réttar skorður og styðja við hagvöxt," segir Rehn en framkvæmdastjórnin mun tjá sig frekar um niðurskurðinn þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.

Mario Monti lýsti yfir áhyggjum sínum í dag af því að evran geti sundrað Evrópu í stað þess að sameina hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert