Nokkur þúsund manns tóku í dag þátt í mótmælum í Moskvu gegn Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, og flokki hans, sem hélt meirihluta í rússneska þinginu í þingkosningum í gær.
Um er að ræða fjölmennustu mótmælaaðgerðir stjórnarandstæðinga í Rússlandi lengi. Þeim lauk með því að lögregla handtók nokkra af fundarmönnunum. Nokkur hundruð manns gengu síðan í átt að höfuðstöðvum yfirkjörstjórnar Rússlands við Kreml en óeirðalögregla stöðvaði gönguna og flutti fólkið á brott í rútum.
Talið er að 5-10 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum. Fólkið hrópaði m.a.: Rússland án Pútíns.
Sameinað Rússland, flokkur Pútíns, fékk rúmlega helming atkvæða í þingkosningunum í gær. Stjórnarandstæðingar og kosningaeftirlitsmenn segja að ekki hafi allt verið með felldu í kosningunum og ýmis dæmi hafi verið um kosningasvik.