Tyrkir að missa áhugann á ESB

Frá Istanbul.
Frá Istanbul. Reuters

Djúpstæð skuldakreppa og skortur á pólitískri forustu á evrusvæðinu leggjast á eitt um að draga úr áhuga Tyrkja á inngöngu í Evrópusambandið.

Sagt er frá þessum umskiptum í fréttaskýringu á vef New York Times og bent á það í inngangi að Recep Erdogan hafi gert inngöngu að Evrópusambandinu að forgangsmáli er hann varð forsætisráðherra árið 2002.

Nú, tæpum áratug síðar, spyr Erol Yarar, sem fer fyrir samtökum um 20.000 íhaldssamra atvinnurekenda á bandi Erdogans, hvers vegna Tyrkland eigi að ganga í sambandið og verða þar með hluti af „óreiðunni“ í Evrópu.

Þá hefur blaðið eftir tyrkneskum embættismönnum að samskiptin við Evrópusambandið séu afar stirð þessa dagana, ekki síst vegna þess að Kýpur verði falið að taka við forsætiskeflinu í sambandinu á næsta ári.

Skoðanakannanir vitna um minnkandi áhuga Tyrkja á inngöngu í sambandið. Þýski Marshall-sjóðurinn hefur kannað stuðninginn við inngöngu og kváðust 74% aðspurðra að aðild að ESB væri af hinu góða þegar um það var spurt 2004.

Í fyrra, árið 2010, var hlutfallið aðeins 38%. Hlutfallið gæti lækkað enn frekar, enda er spáð 7,5% hagvexti í Tyrklandi í ár á sama tíma og harkalegur niðurskurður blasir við víða í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert