87,6% Svía vilja ekki evruna

Reuters

Nær níu af hverjum tíu Svíum vilja ekki taka upp evruna sem gjaldmiðil í stað sænsku krónunnar samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar þar í landi sem birtar voru í dag. Fjallað er um könnunina á fréttavefnum Thelocal.se.

Samtals vilja 87,6% ekki evruna samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar á móti 9,7% sem eru hlynnt því að taka hana upp. 2,7% tóku ekki afstöðu.

Könnunin var gerð af rannsóknafyrirtækinu Skop dagana 28. október til 20. nóvember síðastliðinn og var úrtakið eitt þúsund manns.

Fram kemur í greiningu fyrirtækisins að stuðningur við evruna hafi aldrei mælst minni í Svíþjóð og að stuðningur við hana hafi sífellt minnkað undanfarin tvö ár.

Einnig segir þar að sú spurning vakni hvort það sé orðið algerlega vonlaust verkefni til framtíðar að reyna að fá Svía til þess að taka upp evruna.

„Eitthvað róttækt þarf að gerast til þess að Svíar segi já við evrunni í framtíðinni. Það er sennilega ekki nóg að hún verði aftur stöðugur gjaldmiðill,“ er haft eftir Oerjan Hultaaker hjá Skop.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert