Lögðu hald á falsaðan mat

Mikið af falsaðri matvöru er í umferð.
Mikið af falsaðri matvöru er í umferð. Reuters

Lagt hefur verið hald á hundrað tonn af fölsuðum og ólöglegum mat og drykk, þar á meðal kampavín, ost, ólífuolíu og te, í herferð Interpol í tíu Evrópulöndum. Mikil glæpastarfsemi er á bak við falsaða matvöru enda skilar hún miklum hagnaði en grefur undan lögmæti viðskipta og setur öryggi neytenda í hættu.

Aðgerðin stóð yfir frá 28. nóvember til 4. desember og var hald lagt á yfir 13.000 flöskur af ólífuolíu, 30 tonn af falsaðri tómatsósu, 77.000 stk. af fölsuðum osti, yfir 12.000 flöskur af lélegu víni að virði 300.000 evrur, fimm tonn af lélegum fiski og sjávarafurðum og um 30.000 stykki af fölsuðu sælgæti. Sala á fölsuðum kavíar í gegnum netið er einnig í rannsókn.

Aðgerðirnar fóru fram á flugvöllum, í höfnum, verslunum og á mörkuðum í tíu löndum.  Neytendur sem kaupa þessar vörur stefna heilsu sinni í hættu þar sem matvaran er ekki framleidd í löglegum verksmiðjum eða undir gæðaeftirliti og er flutt og geymd án þess að farið sé eftir viðeigandi hreinlætisstöðlum.

Yfirmaður hjá Interpol segir að aðalmarkmið þessara aðgerða sé að verja almenning fyrir hættulegum fölsuðum og ófullnægjandi mat og drykk, sem fæstir eru meðvitaðir um að þeir eru að kaupa eða neyta. Varan er yfirleitt sett í umbúðir sem líta út fyrir að vera löglegar eða falsaðar umbúðir þekktra vörumerkja. Mikið er framleitt af fölsuðum og ófullnægjandi mat og hafa yfirvöld áhyggjur af því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert