Bandarísk yfirvöld hafa skipað sjö fyrirtækjum að hætta sölu á efnablöndu sem átti að stuðla að þyngdartapi. Engar sönnur höfðu verið færðar á virkni blöndunnar en í henni var meðal annars eggjahvítuefni sem verður til í fylgjunni og finnst í þvagi þungaðra kvenna.
Bandaríska fæðu- og lyfjaeftirlitið, FDA, kveðst hafa sent viðvörunarbréf til fyrirtækjanna sjö en þau hafa selt efnið í formi dropa, taflna eða úða. Vörurnar hafa verið auglýstar sem smáskammtalyf, eða mjög þynntar efnablöndur úr náttúrulegum hráefnum og fullyrt að þær hafi áhrif á heilsu fólks.
Bandaríska fæðu- og lyfjaeftirlitið, FDA, sagði í dag að umræddar vörur geti verið hættulegar, jafnvel þótt farið sé eftir notkunarleiðbeiningum. Eggjahvítuefnið „chorionic gonadotropin“, sem stundum er kallað óléttuhormónið, er í blöndunum en það verður m.a. til í fylgjunni og finnst í þvagi þungaðra kvenna.