Vændiskaup verða jafnvel bönnuð í Frakklandi í janúar en nú er rætt á franska þinginu um að gera slík kaup ólögleg. Ef frumvarpið verður að lögum feta Frakkar í fótspor Svía, Norðmanna og Íslendinga. Talið er að um tvö hundruð þúsund manns vinni við vændi í Frakklandi.
Þverpólitísk nefnd franskra þingmanna hefur lagt til að fara þessa leið en Svíar urðu fyrstir þjóðar til að banna vændiskaup árið 1999.
Í nefndarálitinu kemur fram að það að gera vændiskaup ólögleg auki líkur á að dragi úr vændi í landinu.
Á vef BBC kemur fram að þrátt fyrir að vændiskaup verði gerð ólögleg þá verði vændi áfram leyfilegt.
Það að selja manneskju í vændi er ólöglegt í Frakklandi og eiga þeir sem verða uppvísir að slíku yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi. Um eitt þúsund slíkir dómar falla á hverju ári í Frakklandi.Talið er að níu af hverjum tíu sem leiðast út í vændi séu fórnarlömb mansals.
Að sögn þingmanns sósíalista, Danielle Bousquet, felur frumvarpið í sér að þeir sem gerist sekir um vændiskaup eigi yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsi og þrjú þúsund evra sekt.