Evrusvæðið er komið að fótum fram og því verður ekki bjargað í óbreyttri mynd. Skuldakreppan er svo djúpstæð að skipta verður evrusvæðinu upp. Þetta er mat Davids Murrins, sérfræðings í fjárfestingum hjá fjárfestingarfélaginu Emergent Asset Management.
Það er CNBC, önnur helsta viðskiptasjónvarpsstöð Bandaríkjanna, sem ræðir við Murrin á vefsíðu sinni í dag.
„Það er heillandi að fylgjast með evrópskum stjórnmálamönnum gera örvæntingarfullar tilraunir til að halda kerfinu saman, kerfi sem er gjaldþrota fjárhagslega og hvað snertir svigrúm gangvirkis þess til að styðja vöxt í hagkerfum sem geta sótt fram.
Nú þurfa stjórnmálamennirnir að semja sín á milli. Örvænting þeirra leynir sér ekki,“ segir Murrin og bendir á þann meginvanda Evrópu að hagvaxtarmöguleikar ríkja álfunnar séu ekki nógu miklir.
En það þýðir að þjóðríkin munu eiga í erfiðleikum með að stækka hagkerfi sín þannig að skuldirnar minnki sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.