Ríflega fjórða hver kona í Bandaríkjunum á aldrinum frá 18 til 29 ára hefur ekki unun af kynlífi. Þetta kemur fram í nýrri og viðamikilli rannsókn sem þykir kollvarpa þeirri hugmynd að ungar konur njóti kynlífs meira en eldri konur.
Gerð er grein fyrir niðurstöðunum í tímaritinu Journal of the American Medical Association og byggjast niðurstöðurnar á viðtölum við um 3.400 konur og karla um gervöll Bandaríkin. Lætur nærri að þriðji hver karlmaður sem rætt var hafi ekki ánægju af kynlífi.
Athygli hefur vakið að 27% kvenna á aldrinum 18 til 29 ára hafa enga ánægju af kynlífi og telja, ef eitthvað er, að það sé þeim fremur þrekraun.
Til samanburðar lýstu aðeins 17% kvenna á aldrinum 50 til 59 ára sömu viðhorfum.
Höfundar rannsóknarinnar draga þá ályktun að niðurstöðurnar sýni fram á að stór hluti Bandaríkjamanna glími við erfiðleika á þessu sviði vegna heilsufarslegra og andlegra þátta.
Sagt var frá rannsókninni á vef breska dagblaðsins Independent.