Pútín mótmælt í Pétursborg

Tugir mótmælenda voru teknir höndum í Pétursborg, annarri stærstu borg Rússlands, í dag, fjórða daginn í röð sem niðurstöðum þingkosninganna í landinu var mótmælt. Meðal annars var þess krafist að Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, léti af embætti.

Óeirðalögregla var fengin til að halda mannfjöldanum í skefjum og voru mótmælendur leiddir einn á fætur öðrum upp í rútur sem óku með þá á brott.

Töluverð ólga hefur verið í Rússlandi frá því um liðna helgi og fjölmenn mótmæli í Moskvu og Pétursborg. Meðal annars hefur embættismaður, sem starfaði á kjörstað í Moskvu, lýst því í samtali við AP-fréttastofuna hvernig kosningasvik voru framin.

Fyrr í dag bárust fregnir af því að Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna, teldi að ógilda ætti kosningarnar og endurtaka þær.

Flokkur Vladimírs Pútíns forsætisráðherra og Dímítrís Medvedevs forseta, Sameinað Rússland, hlaut liðlega 49,5% atkvæða og 238 þingsæti af alls 450 í kosningum til neðri deildar þingsins, dúmunnar. Er kosið var 2007 var hann með um 64% fylgi og hreppti 315 sæti. Kommúnistaflokkurinn jók mjög fylgi sitt að þessu sinni, fékk rúm 19% og 92 sæti. Hann var með 11,5% fylgi árið 2007.

Fréttaskýring um kosningarnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert