Ríkisstjóri Illinois í 14 ára fangelsi

Rod Blagojevich, fyrrverandi ríkisstjóri Illinois, var í dag dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir að hafa reynt að selja sæti Baracks Obama í öldungadeildinni þegar hann fór í forsetaframboð. Þá var Blagojevich sakfelldur fyrir fjölda annarra spillingarmála.

Var ríkisstjóri demókrataflokksins handtekinn nokkrum vikum áður en Obama var kjörinn forseti í nóvember 2008. Var hann sakfelldur fyrir 17 ákæruliði í júní en fyrra réttarhald yfir honum endaði á því að kviðdómur komst ekki að einróma niðurstöðu í neinum ákæruliðanna utan eins.

Hefur málið vakið athygli á spillingu í stjórnmálum í Illinois og hafa leynilegar upptökur af samtölum Blagojevich sem eru uppfullar af blótsyrðum og hegðun hans síðan síst orðið til þess að draga úr fjölmiðlafárinu í kringum málið.

Fimm af síðustu níu ríkisstjórum í Illinois-ríki hafa verið ákærðir eða handteknir fyrir fjársvik eða mútur. Forveri Blagojevich í embætti, repúblikaninn George Ryan, afplánar nú sex og hálfs árs fangelsisdóm fyrir fjársvik og fjárkúgun.

Blagojevich, sem er 54 ára gamall, var einnig sakfelldur fyrir að reyna að kúga út framlög í kosningasjóð sinn út úr barnaspítala, framkvæmdastjóra byggingarfyrirtækis og eiganda veðhlaupabrautar. Þá reyndi hann að fá eiganda dagblaðsins Chicago Tribune til þess að reka blaðamenn sem gagnrýndu stjórnarhætti hans.

„Ég get engum um kennt nema sjálfum mér fyrir heimsku mína, gjörðir og hluti sem ég gerði og hélt að ég gæti gert. Ég kenni engum um. Ég ætlaði mér aldrei að brjóta lögin. Ég ætlaði mér aldrei að fara yfir strikið,“ sagði Blagojevich tárvotur áður en dómurinn var kveðinn upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert