Allra augu á Brussel

Framkvæmdastjóri AGS, Christine Lagarde, er meðal þeirra sem eru í …
Framkvæmdastjóri AGS, Christine Lagarde, er meðal þeirra sem eru í Brussel Reuters

Augu heims­ins bein­ast nú til Brus­sel í Belg­íu þar sem leiðtog­ar ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins koma sam­an í kvöld og á morg­un til að ræða vanda evru­svæðis­ins og hvort því verði bjargað. Fjöl­marg­ir hafa tjáð sig um málið, meðal ann­ars þjóðar- og trú­ar­leiðtog­ar.

Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, seg­ir mik­il­vægt að evr­an end­ur­heimti trú­verðug­leika og að sátt­mál­um ESB verði breytt á þann veg að þeir auki lík­ur á stöðug­leika sam­bands­ins. Seg­ist hún telja að þau ríki sem standi utan evru­sam­starfs­ins og þeir sem ekki vilja að sátt­mál­um sam­bands­ins verði breytt megi ekki gleyma þeim hags­mun­um sem eru í húfi, að stöðug­leiki ná­ist inn­an sam­bands­ins. 

Nicolas Sar­kozy, for­seti Frakk­lands, seg­ir að aldrei hafi jafn­mik­il hætta steðjað að Evr­ópu og nú. Aldrei áður hafi hætt­an verið meiri á því að Evr­ópa sundrist. Bregðast verði skjótt við og því leng­ur sem beðið er með að taka ákvörðun því kostnaðarsam­ari verði hún og því minni áhrif hafi hún. „Ef við náum ekki sam­komu­lagi á föstu­dag eig­um við ekki ann­an mögu­leika.“

Jyrki Katain­en, for­sæt­is­ráðherra Finn­lands, seg­ir að herða verði regl­ur en breyt­ing á Lissa­bon-sátt­mál­an­um sé ekki eina leiðin til þess. En von­andi ná­ist góð lausn. Ef nauðsyn­legt sé að breyta sátt­mál­an­um muni Finn­ar styðja það en við skul­um sjá til. „Þetta verður mjög erfiður fund­ur. Ég veit ekki hve lang­an tíma hann tek­ur.“

Dav­id Ca­meron, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, seg­ist muna gera sitt besta Bretlandi til hags­bóta og hann seg­ist von­ast til þess að góður samn­ing­ur ná­ist fyr­ir Bret­land. Hann komi til með að verja hags­muni Bret­lands eft­ir bestu getu á fund­in­um.

Fredrik Rein­feldt, for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar, seg­ir að Sví­ar styðji ekki breyt­ing­ar á sátt­mál­an­um en að sjálf­sögðu sé hann reiðubú­inn til að ræða breyt­ing­ar. Það sé hins veg­ar ekki tími til að gera breyt­ing­ar á sátt­mál­an­um, slíkt sé allt of tíma­frekt. Finna þurfi skjóta lausn á vand­an­um. 

Helle Thorn­ing-Schmidt, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur, seg­ir mik­il­vægt að ESB-þjóðirn­ar 27 standi sam­an. Það hafi skilað ár­angri í fyrri krepp­um sem steðjað hafi að álf­unni og Dan­ir vænti þess að svipað sé upp á ten­ingn­um nú. Dan­ir séu opn­ir fyr­ir því að breyt­ing­ar verði gerðar á sátt­mál­an­um ef það er nauðsyn­leg­ur hluti af lausn­inni. 

Barack Obama, for­seti Banda­ríkj­anna, seg­ist telja að leiðtog­ar ESB-ríkj­anna geri sér grein fyr­ir mik­il­vægi þess að gera veru­leg­ar breyt­ing­ar. Það sé hins veg­ar spurn­ing um hvort stjórn­mála­menn­irn­ir geti komið sér sam­an um svo mikl­ar breyt­ing­ar. „Evr­ópa er nægj­an­lega rík og það er eng­in ástæða til ann­ars en að ætla að hún geti leyst vand­ann. Þetta er Evr­ópa með mörg af rík­ustu lönd­um heims. Sam­einuð sem einn af stærstu mörkuðum heims, ef ekki sá stærsti.“

Dmitrí Med­vedev, for­seti Rúss­lands, seg­ir að áhrif­in af vanda evru­ríkj­anna nái langt út fyr­ir sam­starfið. Þetta hafi áhrif á all­an heim­inn og þar af leiðandi á Rúss­land líka.

Bene­dikt XVI páfi bað til Maríu meyj­ar í dag um stuðning til allra  sem eiga í erfiðleik­um. Þar á meðal Ítal­íu, fyr­ir Evr­ópu og aðra hluta heims­ins. „Megi María hjálpa okk­ur að sjá ljósið í gegn­um skugga þok­unn­ar sem hyl­ur raun­veru­leik­ann.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert