Segja flokk Pútíns hafa fengið 30% atkvæða

Öryggisverðir vakta götu í Moskvu.
Öryggisverðir vakta götu í Moskvu. Reuters

Rússnesk samtök sem höfðu eftirlit með kosningunum til neðri deildar rússneska þingsins 4. desember áætla að Sameinað Rússland, flokkur Vladímírs Pútíns forsætisráðherra, hafi aðeins fengið 29,8% atkvæða í kosningunum, eða um 20% minna en opinberar tölur gefa til kynna.

Það eru samtökin Borgaralegt eftirlit [þýtt sem Citizen Observer á ensku] sem fullyrða þetta en samkvæmt áætlun þeirra fékk Sameinað Rússland 25,8% atkvæða í höfuðborginni, Moskvu. Geta þeir sem lesa rússnesku lesið vefsíðu þeirra hér.

Það er stjórnmálafræðingurinn Dmítrí Oreshkin sem fjármagnar samtökin og hafa starfsmenn þeirra hlotið þjálfun hjá samtökunum Colos, sem sinna kosningaeftirliti víða um heim.

Borgaralegt eftirlit byggir áætlun sína á greiningu við 176 kjörstaði í Rússlandi.

Samkvæmt samtökunum var kosningaþátttakan í Moskvu 51,5% og 53% á landsvísu. Til samanburðar hefur opinber kjörstjórn gefið út að 60,2% atkvæðabærra Rússa hafi gengið að kjörborðinu.

Segja frjálslyndan flokk hafa náð lágmarkinu

Önnur niðurstaða Borgaralegs eftirlits er að Kommúnistaflokkurinn hafi fengið 22,6% atkvæða á landsvísu borið saman við 19,6% atkvæða í opinberum tölum.

Þá hafi hinn frjálslyndi flokkur Jabloko fengið 14,3% og 8,2% á landsvísu eða miklu meira en þau 3,3% á landsvísu sem opinberar tölur gefa til kynna. Sé það rétt hafa frambjóðendur Jabloko þar með náð 7% lágmarkinu til að fá sæti í neðri deildinni.

Niðurstöður Borgaralegs eftirlits eru í samræmi við þá greiningu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) að fjöldi gagnrýniverðra tilvika hafi komið upp í kosningunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert