Breskir læknar vilja að sett verði lög um lágmarksverð á áfengi og markaðssetningu þess verði settar þrengri skorður. Nýjar tölur sýna að aldrei hafa fleiri verið lagðir inn á sjúkrahús í Bretlandi vegna heilsufarsvandamála sem tengjast áfengisneyslu.
Frá því í fyrra hefur 1,1 milljón sjúklinga leitað sér meðferðar á sjúkrahúsum Bretlands vegna áfengisneyslu. Er það fjölgun um níu prósent frá 2009-10 en það var í fyrsta skipti sem fjöldinn fór yfir milljón sjúklinga. Á tímabilinu 2002-03 voru sjúklingarnir 510.780. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.
Segir Andrew Lansley, heilbrigðisráðherra Bretlands, að sú staðreynd að fjöldinn hafi tvöfaldast á níu árum sé sláandi vísbending um að Bretar glími við alvarleg vandamál með ofdrykkju og langvarandi áfengismisnotkun hjá litlum hópi fólks þrátt fyrir að neysla áfengis sé almennt ekki að aukast.