Bretar einangraðir í Evrópu

Bretar hafa einangrað sig frá öðrum Evrópuríkjum í kjölfar ákvörðunar þeirra að neita að skrifa undir samkomulag um hertar reglur um fjárlög ríkjanna. En þeim er ætlað að vinda ofan af skuldakreppu á evrusvæðinu.

Í Reuters-myndskeiði frá fundinum sést Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sýna David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kuldalegt viðmót þegar þeir mætast á gangi í fundarsal. Þetta sé líklega táknræn stund fyrir þá stöðu sem Bretar séu í gagnvart Evrópu.

Cameron segir að Bretar hafi ekki undirritað samkomulagið því það þjóni ekki hagsmunum landsins.

„Við stóðum frammi fyrir vali. Vildum við skrifa undir nýjan samning, sem væri með gríðarlega miklum flækjum, skriffinnsku og öllu sem því fylgir, sem myndi renna í núverandi samkomulag, vildum við gera það án þess að slá varnagla fyrir Bretland,“ spurði Cameron.

„Ef ég gat ekki fengið þessa varnagla samþykkta þá sagðist ég ekki geta samþykkt þetta samkomulag, og þess vegna gerði ég það ekki,“ bætti hann við. 

Margir velta fyrir sér hver sé staða Breta í Evrópu í kjölfar þessarar ákvörðunar. Þingmaðurinn Bernard Jenkin, sem hefur miklar efasemdir um Evrópusambandið, segir að það sé kominn tími til að Bretar endurmeti sína stöðu.

„Nú þegar evruríkin hafa sagt „við ætlum samt að gera þetta, okkur er sama hvað Bretum finnst um þetta“ þá erum við í gjörbreyttu Evrópusambandi. ESB hefur breyst, það er tími til kominn að við breytum skilmálum varðandi aðild okkar að ESB,“ segir Jenkin. 

Howard Wheeldon hjá BGC Partners telur að staða Breta hafi styrkst. Hann segir að margir muni telja að Bretar verði afar einangraðir og að viðskipti Breta við Evrópu muni dragast saman. Wheeldon telur að svo muni ekki verða þó að óttinn sé til staðar.

„Ég tel okkur vera það sterk að við getum fundið nýja markaði,“ segir hann.

Eitt af því sem Cameron var mótfallinn var skattur á millifærslu fjármuna. Markaðssérfræðingurinn David Buick segir að slíkur skattur myndi hafa skaðleg áhrif ef hann yrði tekinn upp í Bretlandi.

„Hann myndi ekki aðeins hafa skaðleg áhrif á efnahagsreikninga. Hann myndi þýða að viðskiptavinir yrðu að greiða mun meira, þetta er mjög dýrt. Þá myndi þetta skaða London sem miðstöð fjármála,“ segir Buick.

Ákvörðun Breta er tekin 20 árum eftir að ríki Evrópu sammæltust um að taka upp sameiginlega mynt. Þá, líkt og nú, stóðu Bretar fyrir utan það samkomulag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka