Leiðtogi breska stjórnmálaflokksins UK Indepdence Party, Nigel Farage, segir á Facebook-síðu sinni í dag að hádegisverði leiðtoga ríkja Evrópusambandsins hafi verið aflýst og bætir því síðan við að David Cameron, forsætisráðherra Breta, sé nú óvinsælli í þeim hópi en hann sjálfur.
Cameron hafnaði því á fundi leiðtoga ríkja ESB sem staðið hefur yfir síðan í gær að samþykkja breytingar á sáttmálum sambandsins sem ætlað er að reyna að bjarga evrusvæðinu nema hann fengi það í gegn að sérstakar reglur myndu gilda um starfsemi fjármálahverfisins í London. Því var hafnað.
Flokkur Farage er hlynntur því að Bretland yfirgefi ESB og sjálfur er hann þekktur fyrir að vera ekki að skafa utan af skoðunum sínum en hann er þingmaður á Evrópuþinginu.
„Hádegisverði leiðtoga ESB aflýst. Cameron er óvinsælli en ég í augnablikinu,“ skrifaði Farage á Facebook-síðu sína.