David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði að það hefði verið „erfið en góð ákvörðun" að koma í nótt í veg fyrir að breytingar yrðu gerðar á Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins eins og Frakkar og Þjóðverjar lögðu til sem leið til að vinna á skuldakreppunni á evrusvæðinu.
„Ef við getum ekki slegið neina varnagla er betra að vera fyrir utan," sagði Cameron á blaðamannafundi í Brussel í nótt. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hafði fyrr um nóttina sagt að kröfur Breta hefðu verið óviðunandi.
„Ég sagði áður en ég kom til Brussel að ef ég gæti ekki tryggt stöðu Bretlands í nýjum ESB-samningi með viðunandi hætti myndi ég ekki samþykkja hann. Það sem í boði var er ekki í samræmi við hagsmuni Bretlands og því féllst ég ekki á það," sagði Cameron.
Fréttir bárust af hörðum deilum Breta og Frakka um málið. Cameron sagðist ekki geta neitað því að ágreiningur ríkti milli annarsvegar þeirra aðildarríkja ESB, sem hafa tekið upp evru, og hinna.
„Ákvarðanirnar, sem teknar voru hér í kvöld, stafa allar af einu: Þeirri staðreynd að það er einn gjaldmiðill í Evrópu, evran. Bretland er ekki í því samstarfi og mun ekki taka þátt í því," sagði Cameron. „Aðrar þjóðir eru í því samstarfi og eru fúsar til að gera róttækar breytingar, gefa eftir fullveldi til að reyna að tryggja að samstarfið virki. Munurinn á milli þeirra, sem eru inni og hinna sem eru úti, hefur óhjákvæmilega myndað spennu."
Cameron setti það sem skilyrði fyrir að samþykkja nýjan ESB-samning um fjármálamarkaðinn að Bretar fengju neitunarvald varðandi reglur sem gætu haft áhrif á fjármálahverfið í Lundúnum. Þessum kröfum var hafnað og að sögn Hermans Van Rompuys, forseta ESB, ætla evruríkin 17 auk 6 annarra ESB-ríkja að gera sérstakan sáttmála sem gildir aðeins um evrusvæðið.
Ungverjar ákváðu eins og Bretar að standa utan við þennan sáttmála. Svíar og Tékkar sögðust þurfa að bera málið undir þjóðþing sín áður en ákvörðun yrði tekin.
Carl Bildt utanríkisráðherra skrifaði á Twitter-vef sinn í nótt: Hef áhyggjur af því að Bretar séu að sigla í átt frá Evrópu. Í hvaða átt? Inn í öflugt bandalag með Ungverjalandi.