Gingrich segir Palestínumenn „uppspunna“ þjóð

Newt Gingrich.
Newt Gingrich. Reuters

Palestínumenn eru hryðjuverkamenn og „uppspunnin“ þjóð. Þetta segir Newt Gingrich sem sækist eftir útnefningu repúblikana sem forsetaframbjóðandi flokksins í kosningunum á næsta ári. Segir hann Barack Obama forseta úr tengslum við raunveruleikann í málefnum Palestínu og Ísraels.

„Ef ég á að taka jafnt á borgaralegu lýðræðisríki sem fer eftir lögum og reglu og hópi hryðjuverkamanna sem skjóta eldflaugum á hverjum degi, þá er það ekki jöfn meðferð, það er stuðningur við hryðjuverkamennina,“ segir Gingrich.

Stuðningur við Gingrich hefur aukist mikið undanfarið og er hann nú meðal efstu manna í fylgiskönnunum í forkosningum repúblikana. Segir hann ennfremur að palestínsk yfirvöld deili „brennandi þrá Hamas-samtakanna eftir að eyða Ísraelsríki“.

Palestínsk stjórnvöld viðurkenna formlega tilverurétt Ísraelsríkis en Gingrich lét þessi ummæli engu að síður falla í viðtali við The Jewish Channel. Segir hann Obama og aðstoðarmenn hans ljúga að sjálfum sér um deilurnar í Miðausturlöndum og þeir séu úr tengslum við raunveruleikann.

Þegar Gingrich var spurður hvort hann væri síonisti svaraði hann því til að gyðingar ættu rétt á eigin ríki. Þá lýsti hann efasemdum um lögmæti kröfu Palestínumanna um sitt eigið ríki.

„Við erum með uppspunna palestínska þjóð sem er í raun arabar og eru sögulega séð hluti af samfélagi araba. Þeir höfðu tækifæri á að fara til margra staða. Af ýmsum pólitískum ástæðum höfum við haldið þessu stríði gegn Ísrael í gangi frá því á 5. áratugnum og mér finnst það vera sorglegt,“ sagði Gingrich.

Þá sagði Gingrich að heimssýn sín væri nokkuð svipuð Benjamín Netanyahus, forsætisráðherra Ísraels. Lofaði hann því að taka harðar og hreinskilnislegar á málefnum Miðausturlandi verði hann kjörinn forseti.

Hussein Ibish, talsmaður Bandarísku aðgerðarsveitarinnar vegna Palestínu gagnrýnir orð Gingrich harðlega. Ísrael og ísraelsk þjóð hafi ekki verið til fyrr en árið 1948. Því væri sú hugmynd að Palestínumenn séu uppspunnin þjóð en ekki Ísraelar sé sögulega óverjandi og ósatt. Slíkar yfirlýsingar feli í sér djúpstæða vanþekkingu á sögunni og órökræna óvild í garð Palestínumanna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert