Króatía undirritaði aðildarsamning að Evrópusambandinu í dag og er stefnt að því að landið gangi í sambandið 1. júlí 2013. Þar með lýkur formlega aðildarferli sem staðið hefur yfir í nær áratug.
„Þið eruð hjartanlega velkomin í Evrópufjölskylduna,“ sagði forseti leiðtogaráðs ESB, Herman van Rompuy, af þessu tilefni. „Við höfum loksins stigið yfir þröskuldinn á hinu evrópska heimili okkar,“ sagði forseti Króatíu Ivo Josipovic.
Áður en Króatía getur gengið í ESB verður að bera aðildina undir króatíska kjósendur í þjóðaratkvæði sem gert er ráð fyrir að fari fram í byrjun næsta árs. Síðustu skoðanakannanir hafa sýnt um 60% stuðning við inngöngu.
Atburðurinn fór fram í skugga efnahagskrísunnar sem ESB og evrusvæðið glíma við. En efnahagur Króata, sem aðallega byggist á ferðamannaiðnaði, hefur einnig átt á brattann að sækja frá því í byrjun árs 2009. Hagvöxtur í landinu er einungis áætlaður 0,5% á þessu ári og atvinnuleysi á meðal landsmanna er 17%.