Öll ESB-ríki sammála nema Bretar

Elio Di Rupo, nýr forsætisráðherra Belgíu, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, …
Elio Di Rupo, nýr forsætisráðherra Belgíu, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, í Brussel í dag. Reuters

Leiðtogar allra Evrópusambandsríkja nema Bretlands náðu í dag samkomulagi um hertar reglur um fjárlög ríkjanna sem ætlað er að vinda ofan af skuldakreppu á evrusvæðinu, sem ógnað hefur fjármálakerfi álfunnar og heimsins alls.

Alls hafa 26 aðildarríki af 27 lýst yfir vilja til að standa að nýju samkomulagi um hertar fjármálareglur. Bretar vilja hins vegar ekki að þessar nýju reglur verði hluti af stofnsáttmála Evrópusambandsins. 

„Bretar eru utan evrusvæðisins og í því ljósi höfum við lent í þessari stöðu áður," sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í morgun. 

Merkel sagðist vera afar ánægð með, að flestar aðildarþjóðirnar hefðu samþykkt að taka þátt í fjármálalegum sáttmála, sem felur í sér nánast sjálfvirkar refsiaðgerðir fari lönd fram úr viðmiðunum um opinberar skuldir og fjárlagahalla. 

Ríkin 17, sem eru á evrusvæðinu, hafa þegar skrifað undir sáttmálann og 9 önnur ESB-ríki hafa gefið til kynna að þau muni væntanlega taka þátt í þessu ferli eftir að hafa ráðgast við þjóðþingin. 

Ungverjar höfðu upphaflega lýst efasemdum og Svíar og Tékkar höfðu ekki tekið ákvörðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka