Tilraunir til að ná samstöðu meðal allra ríkja Evrópusambandsins til bjargar evrunni hafa farið út um þúfur, að sögn Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta. Munu þær því héðan í frá einskorðast við að ná saman meðal 17 ríkja evrusvæðisins.
Sarkozy sagði þetta nú undir morgun eftir tæplega 10 stunda næturfund leiðtoga ESB-ríkjanna í Brussel. Hann sagði að evrulöndin hefðu sett sér lokafrest fram í mars nk. til að ná samkomulagi um sérstakan ríkjasáttmála um evruna.
Til að leysa skuldakreppu evrusvæðisins vildu Frakkar og Þjóðverjar fá öll ESB-ríkin 27 til að sameinast um breytingar á lögum sambandsins er falið hefðu í sér stífar fjárlagareglur. Bretar kröfðust á móti aðgerða sem hvorki Sarkozy né Angela Merkel kanslari Þýskalands gátu fallist á.
Að sögn Sarkozy völdu Ungverjar einnig að standa utan samkomulags ríkjanna 27 og Svíar og Tékkar vildu fara með málið inn á þjóðþing sín áður en þeir tækju afstöðu. Öll önnur ríki ESB vildu ganga til samkomulags, sagði Frakklandsforseti.
David Cameron forsætisráðherra Bretlands sagðist eftir fundinn hafa tekið „erfiða ákvörðun en rétta“. „Það sem í boði var er ekki í þágu hagsmuna Breta,“ bætti hann við.