Enn bólar ekkert á samkomulagi á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Durban í Suður-Afríku. Viðræður stóðu fram á kvöld í gær og er nú unnið að því í kapp við tímann að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Líkurnar á því að hún náist eru þó taldar fara minnkandi.
„Við erum núna í sérlega viðkvæmri aðstöðu út af tímanum. Það er mjög vafasamt að við náum saman,“ sagði Norbert Roettgen, umhverfisráðherra Þýskalands, við fréttamenn eftir að viðræður höfðu staðið í alla nótt.
Til umræðu hefur verið tillaga Evrópusambandslandanna sem felur í sér að haldið verði lífi í Kyoto-sáttmálanum. Samkvæmt tillögunni myndu aðildarríki rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar skuldbinda sig lagalega fyrir árið 2015 til að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda.