Nóbelsverðaunin í bókmenntum, eðlisfræði, efnafræði, hagfræði og læknisfræði voru afhent við hátíðlega athöfn í tónleikahöllinni í Stokkhólmi í dag. Karl Gústaf XVI. Svíakonungur afhenti verðlaunin að viðstöddum nóbelsverðlaunahöfum frá fyrri árum og fleiri gestum.
Verðlaunaafhendingin fór fram á dánardegi Alfreds Nobel sem stofnaði verðlaunin en hann lést árið 1896. Sænska skáldið Tomas Tranströmer tók við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum 2011.
Þrír skiptu með sér Nóbelsverðlaunum í eðlisfræði að þessu sinni. Saul Perlmutter fékk hálf verðlaun og þeir Brian P. Schmidt og Adam G. Reiss skiptu með sér hinum helmingnum.
Dan Schectman fékk Nóbelsverðlaunin í efnafræði. Nóbelsverðlaunin í læknisfræði skiptust á milli Ralphs M. Steinmans heitins annars vegar og þeirra Bruce A. Beutlers og Jules A. Hoffmans hins vegar. Steinman lést aðeins þremur dögum áður en tilkynnt var um verðlaunahafana 3. október síðastliðinn.
Nóbelsnefndinni var ókunnugt um andlát hans þegar útnefningin var tilkynnt. Verðlaunin eru ekki veitt látnu fólki, en ákveðið var að láta valið standa því ekki var vitað um andlát Steinmans. Ekkja hans, Claudia Steinman, tók við verðlaununum í hans nafni.
Þá voru verðlaun Sænska seðlabankans í hagvísindum, sem veitt eru í minningu Alfreds Nobel, einnig veitt í dag. Þeir Thomas J. Sargent og Christopher A. Sims skiptu með sér verðlaununum að þessu sinni.