Sövndal gegn samkomulagi ESB

Villy Sövndal er andvígur því að Danir styðji samkomulag ESB …
Villy Sövndal er andvígur því að Danir styðji samkomulag ESB um ráðstafanir gegn efnahagsvandanum. Magnus Fröderberg/norden.org

Ólga hefur verið um hríð vegna evrumálanna í SF, Sósíalíska þjóðarflokknum danska, sem á aðild að ríkisstjórn jafnaðarmanna og fleiri flokka. Leiðtogi flokksins, Villy Sövndal utanríkisráherra, lýsti í dag andstöðu við að Danir styddu samkomulag ESB um ráðstafanir gegn efnahagsvandanum, að sögn danska ríkisútvarpsins, DR

Söndal tók ekki fram hvaða hlutar samkomulagsins væru óaðgengilegir en aðrir flokksmenn hans hafa gagnrýnt það sem þeir kalla aukna markaðshyggju í lausnum sem beitt er gegn skuldakreppunni. „Þess er krafist að við tökum þátt í algerlega skilyrðislausri frjálshyggjustefnu,“ segir einn flokksmaðurinn, Pernille Frahm, í samtali við Berlingske Tidende.

Danir tóku ekki upp evruna en gengi krónunnar er í reynd tengt við hana. Samþykktar voru á leiðtogafundi ESB á föstudag margvíslegar ráðstafanir til að berjast gegn skuldakreppunni. Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Dana, var meðal þeirra sem sögðu já en David Cameron, forsætisráðherra Breta, var einn á móti af alls 27 leiðtogum ESB.

„Við hefðum átt að halda okkur algerlega utan við þetta og styðja Breta,“ segir SF-maðurinn Jörgen Grön. Annar flokksmaður, Mogens Ove Madsen, segir evruna sjálfa eiga sök á vandanum í skuldsettum ríkjum Suður-Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert