Verið er að leggja fram tillögur um framhald Kýótó-bókunarinnar á fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna á fundinum í Durban í Suður-Afríku, að sögn formanns íslensku sendinefndarinnar, Huga Ólafssonar. Óljóst sé hvort þær nægi til samkomulags.
„Síðan þarf að leggja þessar hugmyndir fyrir ríkin sem hafa verið andvíg því að taka á sig lagalega bindandi skuldbindingar um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, það gæti tekið nokkrar klukkustundir,“ sagði Hugi. Gildistímabil Kýótó-samningsins rennur út í lok ársins 2012. Nokkur ríki sem eru meðal þeirra er losa mest af umræddum lofttegundum, þar á meðal Bandaríkin, Rússland og Japan, vilja tryggingu fyrir því að Kína, Indland og fleiri þróunarríki taki á sig hluta byrðanna sem því fylgja að draga úr útblæstrinum. Kína losar nú mest allra ríkja af koldíoxíði út í andrúmsloftið.