Samkomulag hefur náðst á fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem fram fór í Durban í Suður-Afríku. Aðgerðaáætlunin er sögð vera í jafnvægi, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins.
Fram kemur að Evrópusambandið hafi orðið við kröfum þróunarríkja um að tengja núverandi áætlun sína um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda við Kýótó-bókunina, sem skuldbindur ríkin til að minnka losun niður fyrir það sem hún var árið 1990. Kýótó-bókunin rennur út í lok næsta árs og var hún því framlengd á fundinum.
Viðræður um nýtt samkomulag, sem myndi ná til allra ríkja heims, hefjast á næsta ári og á þeim viðræðum að ljúka 2015. Nýtt samkomulag á að taka gildi fimm árum síðar, eða árið 2020.
Einnig náðist samkomulag um að setja á laggirnar sjóð sem fátækari ríki heims geti nýtt sér í baráttunni við loftlagsbreytingar. Hins vegar liggur ekki fyrir með hvaða hætti eigi að safna fé í sjóðinn.
Viðræðurnar voru framlengdar um 36 klukkustundir.
Lokaniðurstaðan tafðist vegna deilna ESB og Indlands um nákvæmt orðalag um vegvísi að nýjum sáttmála. Indversk stjórnvöld vildu ekki taka fram að sáttmálinn ætti að vera lagalega skuldbindandi. Að lokum náðist samkomulag í þá veru.