Stjórnarsamstarfið í Bretlandi stendur traustum fótum þrátt fyrir ágreining Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið. Þetta fullyrtu þingmenn Frjálslyndra demókrata í dag.
David Cameron, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur í dag verið boðaður fyrir þingið til að útskýra þá ákvörðun sína að beita neitunarvaldi gegn samkomulagi um breytingar á sáttmála Evrópusambandsins. Ákvörðun hans var tekið fagnandi af breskum íhaldsmönnum, sem flestir eru efasemdarmenn um Evrópusambandið, en hinsvegar hefur gjáin breikkað milli þeirra og Frjálslyndra demókrata, sem eru hliðhollir ESB og segja ákvörðunina slæma fyrir Bretland.
Fjármálaráðherra Breta, frjálslyndi demókratinn Danny Alexander, segir engu að síður að samsteypustjórn flokkanna tveggja, sem mynduð var í maí á síðasta ári, muni sitja áfram út kjörtímabilið. „Þetta er engin ógn við stjórnarsamstarfið," sagði hann í viðtali við BBC í morgun.
Skoðanakannanir sýna að meirihluti almennings í Bretlandi styður ákvörðun forsætisráðherrans.